Alþjóðasamband líkamsræktarmanna, eða IFBB eins og það er skammstafað á ensku (International Federation of Body Building and Fitness) er eina viðurkennda keppnissambandið sem starfar hér á landi og sendir keppendur á heimsmeistara- og Evrópumót.Keppendur sem keppa á vegum alþjóðasambandsins eiga því möguleika á að keppa erlendis við keppendur sem eru á heimsmælihvarða, hvort sem um er að ræða vaxtarrækt eða fitness. Innan samtakana eru 182 aðildalönd sem saman mynda sterk samtök á heimsvísu. IFBB er óformlega viðurkennt af alþjóðlegu Ólympíunefndinni og fer að reglum hennar. Það að vera hluti stórra samtaka á borð við IFBB þýðir að við þurfum að sinna ýmsum skildum á alþjóðavettvangi. Þar er helst að nefna alþjóðlegar reglur sem starfað er eftir. Hér á síðunni er að finna reglur áhugamanna og einnig tengingu inn á IFBB.com sem er heimasíða samtakana. Keppendur eru hvattir til að kynna sér starfssemi samtakana og alþjóðlegar keppnir, enda öll sterkustu mótin í fitness og vaxtarrækt í heiminum haldin á vegum IFBB.

Hlutverk stjórnenda IFBB fitness á Íslandi felst ekki eingöngu í keppnishaldi – heldur einnig í því að kynna fitness fyrir almenningi og auka áhuga á líkamsrækt.

Eins og staðan er í dag má segja að það hafi tekist bærilega þegar horft er til baka. Fyrsta Íslandsmótið í fitness var haldið árið 1994 en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Í dag er þetta orðin rótgróin keppnisgrein og er enn að vaxa í vinsældum. Það er einnig stefnan að senda sem oftast keppendur til keppni á erlendri grundu á Norðurlandamót, Evrópumót og Heimsmeistaramót ef kostur er. Íslenskir keppendur eiga fullt erindi á keppnir erlendis enda myndi ákveðin stöðnun ríkja ef ekki yrði horft lengra til en í heimahagana.