Hár blóðþrýstingur gefur til kynna að álag sé á æðaveggi sem gerir æðarnar stífar og dregur úr hæfni þeirra til að sinna meginhlutverki sínu sem er einfaldlega að flytja blóð um líkamann.
Stífar æðar auka hættuna á hjartaáfalli, hjartabilun og heilablóðfalli. D-vítamín er talið bæta virkni þeirra með því að stuðla að stækkun og auka þannig blóðstreymi og lækka um leið blóðþrýstinginn. Þetta fullyrðir ástralski vísindamaðurinn Alexander Rodriguez sem ásamt félögum sínum hefur undanfarið verið að yfirfara rannsóknir á þessu sviði.
Hafa ber í huga að samhengi er á milli æðakölkunar og skorts á D-vítamíni. D-vítamín í bætiefnaformi hefur ekki reynst draga úr stífleika æða.
Ef ráða má í þessar niðurstöður Alexanders og félaga má ætla að það geri engan galdur að byrja að taka D-vítamín þegar vandamálið er til staðar þó færa megi rök fyrir fyrirbyggjandi áhrifum. Fyrst og fremst ber að gæta þess að verða ekki fyrir skorti á D-vítamíni.
Þetta gefur til kynna mikilvægi þess að huga vel að mataræðinu alla ævi og gæta þess að fá D-vítamín daglega. D-vítamín sem fengið er í töfluformi eða með því að taka Lýsi getur komið í veg fyrir skort. Gott er þó að hafa í huga máltækið, „betra er heilt en vel gróið“. Það á líklega vel við í þessu tilfelli.
(Clinical Endocrinology, 84: 645-657, 2016)