Þeir sem eru með of háan blóðþrýsting ættu að fara varlega í að taka verkjalyf. Hafa ber í huga að mörg lyf sem eru ekki lyfsseðilsskyld eru þrátt fyrir allt varasöm. Sömuleiðis þarf að hafa í huga að það er ekki til neitt sem heitir hættulaust lyf. Öll lyf geta haft aukaverkanir.

Taktu alltaf öruggasta lyfið. Ekki nota lyf eins og íbúprófen, naproxen sodium eða ketóprófen sem verkjalyf nema læknirinn þinn hafi sérstaklega tekið fram að það sé óhætt. Frekar ætti að taka verkjalyf sem síður hækka blóðþrýsting eins og aspirín eða acetamínófen.

Sérfræðingar hjá WebMd tóku saman nokkur heilræði varðandi notkun verkjalyfja.

Farðu eftir leiðbeiningum og notaðu skynsemina. Ekki nota stærri skammta en ráðlagt er. Það gildir um flest verkjalyf að ekki ætti að taka þau lengur en í 10 daga. Ef þú telur enn þörf fyrir verkjalyf eftir þann tíma ættirðu að leita læknis. Í því sambandi er vert að hafa í huga að þó að læknir ávísi á verkjalyf til lengri tíma notkunar er ekki þar með sagt að það sé þér endilega fyrir bestu.

Lestu leiðbeiningarnar. Líklega eru margir sekir um að henda leiðbeiningunum inni í lyfjapakkningunum um leið og pakkinn er opnaður. Þú ættir að venja þig á að lesa leiðbeiningarnar, sérstaklega um aukaverkanir og sérstaklega um það hvaða áhrif það hefur að taka lyfið með öðrum lyfjum. Þeir sem eru að taka blóðþynnandi lyf þurfa að fara sérstaklega varlega.

Mældu blóðþrýstinginn reglulega. Þeir sem hafa verið með of háan blóðþrýsting ættu að mæla hann reglulega, en ef tekin eru verkjalyf er algerlega nauðsynlegt að fylgjast vel með blóðþrýstingnum. Flest apótek bjóða upp á að mæla blóðþrýsting og þau selja sömuleiðis sérstaka blóðþrýstingsmæla. Verkjalyf geta haft mikil áhrif á blóðþrýstinginn.

Forðastu áfengi. Ef tekin eru bólgueyðandi NSAID lyf þarf að hafa í huga að einungis eitt glas á viku getur aukið hættuna á innvortis blæðingum í meltingarvegi. Þeir sem drekka reglulega, þó ekki sé nema eitt til tvö glös á dag ættu alls ekki að taka bólgueyðandi lyf eins og aspirín og sambærileg lyf. Flest verkjalyf fara illa saman með áfengi og það að blanda saman acetamínófen og áfengi getur valdið lifrarskemmdum.

Lestu leiðbeiningarnar með öllum lyfjum. Verkjalyf eins og íbúprófen, aspirín og acetamínófen eru notuð í ólíklegustu vörur. Ýmsar kvef-mixtúrur og lyf við brjóstsviða geta innihaldið þessi lyf. Vertu viss um það hvað þú ert að setja ofan í þig.

Lyfjablöndur eru sérlega hættulegar. Eitt ákveðið lyf eitt og sér er ef til vill í lagi. Þegar tvö eða fleiri lyf koma saman getur myndast hættuleg blanda. Ef þú ert í vafa er gott að ræða við lækni hvort óhætt sé að taka lyfin saman og muna þá að segja honum frá öllum fæðubótarefnum og vítamínum sem þú ert að taka ef einhver eru.

(WebMD – High blood pressure and pain relievers.)