Smærri en fleiri máltíðir er það sem ítrekað er mælt með fyrir þá sem vilja léttast. Talið hefur verið að margar máltíðir yfir daginn efli efnaskiptin, dragi úr hungri, bæti blóðsykurstjórnun og minnki líkamsfitu til lengri tíma litið. Gerð var rannsókn við Háskólann í Missouri þar sem vísindamenn rannsökuðu áhrif fjölda máltíða á hina ýmsu þætti. Miðað var við að þrjár máltíðir á dag væru útgangspunkturinn. Athuguð voru áhrif á matarlyst, hitaeininganeyslu og hormón sem hafa áhrif á matarlyst og efnaskiptahraða. Það að borða oftar en þrisvar sinnum reyndist ekki breyta mældum niðurstöðum á þessum þáttum. Ef menn borðuðu hinsvegar færri en þrjár máltíðir á dag varð matarlystin miklu meiri og heildar-hitaeininganeyslan yfir daginn jókst. Þrjár eða fleiri máltíðir yfir daginn eru nauðsynlegar til þess að halda matarlystinni í hófi og stuðla þannig að léttingu. Það að borða einungis tvisvar á dag er ekki heppilegt.
Flestir næringarfræðingar mæla með fleiri frekar en færri máltíðum yfir daginn. Matarlystin verður meiri ef þær eru færri.
Líklega er ástæða þess að heildar- hitaeininganeyslan eykst ef sjaldan er borðað sú að blóðsykurinn fellur neðar eftir því sem lengra líður á milli máltíða. Blóðsykurinn er mælikvarði líkamans á það hversu svöng við erum. Ef hann er orðinn mjög lágur erum við til í að borða nánast hvað sem er og þá í miklu magni. Sjálfsstjórn hverfur fyrir lítið og mun líklegra að ruslfæði verði fyrir valinu.
(Journal of Nutrition, vefútgáfa 1. desember, 2010)