Fáir gera sér grein fyrir þeim fjölda hitaeininga sem þeir borða fyrr en þeir fara að vigta og skrifa niður allt sem þeir borða eða drekka. Við þyngjumst ef við borðum fleiri hitaeiningar en við brennum og léttumst ef við borðum færri hitaeiningar en við brennum. Sorglega einfalt og því undarlegt að hálfur heimurinn botni ekkert í því af hverju hann er spikfeitur. Hitaeiningar eru ósýnilegar og eina leiðin til þess að skilja hvers vegna við fitnum er að auka hitaeiningavitund okkar. Sagt er að góður rekstrarfræðingur hafi kostnaðarvitund. Kostnaðarvitundin ræður því hvort reksturinn hans fari á hausinn eða ekki. Sama á við um okkur sem hrærumst í heimi hitaeininga í formi freistandi fæðu á skyndibitastöðum. Líklega er ein helsta skýringin á offitufaraldrinum sú að meðvitund okkar um gildi hitaeininga er ekki sérlega skörp. Það yrði til lengri tíma litið þjóðhagslega hagkvæmt að leggja aukna áherslu á næringarfræði í barnaskólum til þess að efla hitaeiningavitund barna. Sá sem drekkur tvo lítra af gosi á dag sem inniheldur 42 hitaeiningar í 100 g hefur lítinn rétt á að verða undrandi á öllum aukakílóunum eftir tvö til þrjú ár.
Fyrir skemmstu var rætt um það á Alþingi að skylda skyndibitastaði til að gefa upp hitaeiningafjölda í öllum réttum. Þetta er líklega ein besta hugmynd sem sprottið hefur upp lengi vel. Raddir um forsjárhyggju og úrtölur af hálfu skyndibitastaða eiga eflaust eftir að heyrast í umræðunni ef þessi hugmynd fær byr undir báða vængi. Það er ekki líklegt að alþjóðlegur skyndibitastaður sé til í að opinbera svartan sannleikann um hitaeiningarnar á matseðlum sínum. Hitaeiningafjöldi á matseðlum yrði óþægileg staðreynd fyrir flesta. Hver vill vita að máltíð með öllu sem drukkið var og borðað innihaldi nokkur þúsund hitaeiningar? Sjálfsagt vilja margir fá að vera í friði fyrir sannleikanum í stað þess að matseðlar skyndibitastaða birti þeim ástæður aukakílóana.