Það þarf ekki að hafa mörg orð um þróun offitu í hinum vestræna heimi. Almennt er hlutfall almennings sem berst við alvarlega offitu í nágrenni við 35%. Þróun lyfja gegn þessum fylgikvilla vestræns lífsstíls hefur hinsvegar ekki farið hátt undanfarin ár. Eflaust dreymir marga um að geta einn daginn tekið pillu og losnað þannig við aukakílóin. Offita hefur í för með sér mörg alvarleg heilbrigðisvandamál og kostar þjóðfélagið gríðarlega mikið þegar upp er staðið. Eru þá skert lífsgæði fórnarlambana ónefnd. Hreyfing og betrumbætur í mataræði hafa verið helsta meðalið gegn offitufaraldrinum fram til þessa. Því miður verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að sú lausn hafi gagnast sumum hefur hlutfall offitu í þjóðfélaginu haldið áfram að vaxa. Hreyfing og mataræði hafa því ekki lagað ástandið þegar á heildina er litið. Spænskir vísindamenn halda því fram að til lengri tíma litið verði lyf ákjósanlegasta lausnin fyrir þorra fólks í framtíðinni. Nokkur lyf hafa komið fram á sjónarsviðið á undanförnum árum án þess að nokkurt þeirra hafi reynst sú lausn sem vonast var eftir. Horft hefur verið til lyfja sem auka efnaskiptahraða eins og sibutramine og amfetamíns. Slík lyf hafa því miður reynst hættuleg og árangurinn auk þess mjög takmarkaður. Önnur lyf sem hafa snúist um að hafa áhrif á matarlyst og saðningartilfinningu. Engin lyf hafa enn komið fram sem hafa ásættanlegar aukaverkanir og því sitjum við uppi með að þurfa að fara í naflaskoðun með okkar eigin lífsstíl og nota það eina sem enn virkar. Stunda hreyfingu og hætta ofáti.
(Drug Design Development Therapy, 8: 2391-2400, 2014)