Grundvallaratriði vöðvaþjálfunar er að leggja það mikið álag á vöðva að hann verði að bregðast við álaginu með því að stækka. Þetta gerum við með því að auka þyngdir eða lyfta fram að uppgjöf.
Það kallast að æfa að uppgjöf þegar lyft er þar til stöngin neitar að hreyfast og þú gefst upp. Til er önnur útgáfa þessa þjálfunarforms þar sem uppgjöfin er tekin skrefi lengra og þyngdin létt þegar komið er að uppgjöf og haldið áfram að lyfta með léttari þyngd þar til aftur er gefist upp. Þannig er hægt að taka mun fleiri lyftur með því einfaldlega að létta þyngdina í skrefum.
Samkvæmt rannsókn sem James Fisher við Southampton Solent Háskólann í Bretlandi gerði var þessi aðferð hinsvegar ekki að skila meiri árangri en hefðbundin þjálfun að uppgjöf. Það voru háskólanemar sem tóku þátt í rannsókninni.
Það þarf nefnilega að hafa í huga að öll þjálfun skilar árangri upp að ákveðnu marki, sérstaklega hjá fólki sem er ekki í þjálfun. Það þarf nefnilega að aðgreina árangur þeirra sem ekki eru í þjálfun frá árangri þeirra sem eru að æfa alla daga og eru komnir af byrjendastiginu.
(Journal Strength Conditioning Research, 30: 1425-1432, 2016)