Eftir því sem árin líða missa flestir vöðvamassa. Áætlað er að á milli 40-60 ára aldurs glatist um 20% vöðvamassans og eftir því sem árin líða heldur hann áfram að minnka sé ekkert að gert. Þetta ástand kallast vöðvarýrnun sem hefur ýmsa óæskilega fylgifiska með sér. Vöðvarýrnun ýtir undir insúlínviðnám og áunna sykursýki hjá öldruðum auk þess sem lífsgæði versna vegna verra líkamlegs ástands. Rannsakendur við Háskólann í Parma á Ítalíu yfirfóru eldri rannsóknir sem snúa að vöðvarýrnun og bentu í kjölfarið á að aldraðir sem fá testósterón og DHEA bætiefni geti fyrirbyggt þannig vöðvarýrnun janfvel án þess að stunda æfingar. Testósterón yrði vafalaust til þess að þeir öldruðu myndu falla á lyfjaprófi gagnvart íþróttum en testósterón er að mestu notað í læknisfræðilegum tilgangi, ekki eingöngu af íþróttamönnum sem stytta sér leiðir til árangurs þó að það sé þekktara fyrir þann tilgang. Niðurstöður þessarar samantektar hinna ítölsku vísindamanna fólu einnig í sér þá ályktun að æfingar og hreyfing væru nauðsynlegur þáttur í að viðhalda hreyfigetu og lífgæðum þegar aldurinn færist yfir.
(Current Opinion Clinical Nutrition Metabolic Care, 16: 3-13, 2013)