Fjöldi íþróttamanna er háður því að vera í ákveðinni keppnisþyngd til þess að vera gjaldgengur í ákveðna þyngdarflokka. Þetta á við um margar íþróttagreinar og oft er það svo að menn vilja vera rétt undir þyngdarmörkunum til þess að þeir séu sem sterkastir og eins þungir og leyfilegt er í tilteknum flokk. Þessu fylgir hinsvegar oft sá galli að á undirbúningstímabilinu eru menn gjarnan talsvert fyrir ofan þyngdarmörk flokksins og þurfa að létta sig til þess að ná keppnisþyngdinni. Léttingin er þá gjarnan framkvæmd á stuttum tíma og áhrif mataræðisins getur haft talsvert að segja um frammistöðu auk þess sem vöðvamassi minnkar gjarnan.
Vísindamenn við Rannsóknamiðstöð í líffræði og læknisfræði í Pennington í Baton Rouge í Bandaríkjunum rannsökuðu áhrif léttinga af þessu tagi. Rannsóknin sem framkvæmd var undir stjórn Dr. J.J. Zachwieja leiddi til þess að þeir komust að því að karlar og konur sem voru í góðu formi og borðuðu 750 hitaeiningar á dag í tvær vikur léttust um 1,5 kg. Því miður var hinsvegar 61% af léttingunni hreinn vöðvamassi. Þrátt fyrir vöðvamissinn varð hinsvegar ekki að sjá að breytingar yrðu á styrk, ákafaþoli í æfingum né tíma í 7 kílómetra hlaupi. Niðurstaðan segir okkur að vaxtarræktarmenn sem vilja viðhalda vöðvamassa ættu að forðast sveltikúra vegna þess að vöðvamassinn rýrnar verulega. Það sem íþróttamennirnir sem þurfa að létta sig svona þurfa hinsvegar að hafa í huga er að þrátt fyrir að ekki sé að sjá að árangur breytist teljandi við þessa léttingu er líklegt að líkamleg geta hrörni ef þetta er gert nokkrum sinnum á sama keppnistímabilinu.
(Int. Sports Nutr., 22: 310-316, 2001)