Samkvæmt finnskri rannsókn aðlagast þeir sem æfa á morgnana styrktarmuninum á milli morguns og síðdegis.
Það er liðin tíð að þeir sem vakna klukkan fimm eða sex á morgnana til að fara í ræktina teljist öfgafullir furðufuglar. Í dag er algengt að æfingastöðvar séu þéttpakkaðar af fólki sem tekur æfingu áður en haldið er til vinnu eða skóla.
Þeir sem stunda lyftingar, kraftlyftingar eða nota almennt miklar þyngdir í ræktinni finna fyrir augljósum styrktarmun á milli morguns og seinniparts. Gerðar hafa verið rannsóknir sem styðja þessa fullyrðingu og er talið að ástæða þess að flestir eru sterkari seinnipart dags sé hærra hitastig í vöðvum.
Samkvæmt finnskri rannsókn aðlagast þeir sem æfa á morgnana þessum styrktarmun. Rannsakaðir voru 27 karlar sem stunduðu styrktaræfingar annað hvort á morgnana á milli kl 7:00-9:00 eða seinnipartinn á milli kl 17:00-19:00. Í upphafi rannsóknarinnar voru allir þátttakendur sterkari seinnipart dags en að morgni. Munurinn varð hinsvegar að engu í lok rannsóknar hjá þeim sem æfðu á morgnana en ekki hjá þeim sem æfðu seinnipartinn.
Niðurstöðurnar sýna að hægt er að aðlagast morgunæfingum og ná hámarksgetu í styrk þrátt fyrir allt. Sömuleiðis kom í ljós að heppilegast er að æfa á morgnana ef stefnt er á keppni sem fer fram að morgni til.
(Journal Sports Sciences, vefútgáfa 01-18)