RANNSÓKN SEM NÁÐI TIL UM 9000 KARLMANNA OG STÓÐ Í 19 ÁR SÝNIR FRAM Á JÁKVÆÐ ÁHRIF ÞESS AÐ STUNDA RÆKTINA.
Í umfjöllunum um rannsóknir er oftast talað um að þolæfingar styrki hjarta- og kransæðakerfið og verndi þannig æðakerfið fyrir sjúkdómum. Þolæfingar virðast draga úr líkum á hjartaáföllum og óvæntum dauðsföllum sem tengjast hjarta- og æðakerfinu. Sjaldan er talað um vöðvastyrk í þessu sambandi en með niðurstöðum rannsóknar sem gerð var við Karolínuháskólann í Svíþjóð kann að verða breyting á.
Rannsóknin sem hefur tekið 19 ár og náði til 8,762 karlmanna á aldrinum 20-80 ára sýndi fram á að karlarnir sem voru sterkastir voru síst í hættu á að deyja úr hjartasjúkdómum, krabbameini eða af öðrum ástæðum.
Karlarnir fóru í læknisskoðun og þrek- og styrktarpróf tæplega 20 árum eftir að rannsóknin hófst. Þeir sem reyndust sterkastir voru í 32% minni hættu á að deyja vegna allra áhættuþátta, 50% vegna hjartaáfalla og 32% vegna krabbameins í samanburði við þann þriðjung karlmannana sem reyndust síst sterkir.
Að viðhalda styrk getur lengt lífið og aukið lífsgæðin samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Þeir sem stóðu að rannsókninni tóku sérstaklega fram að styrktarþjálfun ætti ekki að koma í staðinn fyrir þolþjálfun–heldur ætti að stunda bæði styrktar- og þolþjálfun.
(British Medical Journal, 337: a439)