Þegar streita gerir vart við sig eða andlegt ójafnvægi fá margir mikla löngun í súkkulaði. Ástæðan getur verið margslungin eins og fram kemur í nýlegri rannsókn.
Súkkulaði inniheldur efni sem nefnist theobromin. Efnið virkar örvandi á svipaðan hátt og koffein í kaffi, það gefur orku þannig að menn þola frekar álag þrátt fyrir þreytu.
Súkkulaði inniheldur einnig ýmis efni sem minna á virkni hjá hassi. Þau hjálpa heilanum að slaka betur á en jafnframt er þar líklega komin ástæðan fyrir því að súkkulaði getur verið vanabindandi.
Súkkulaði inniheldur líka kolvetni sem frásogast fljótt í meltingunni og lítið af próteini. Það eykur þannig magn boðefnisins serotóníns í heilanum. Virkni þess virkar á svipaðan hátt og þunglyndislyf. Magn serotóníns í heilanum hefur mikið að segja um það hversu mikið verður vart við þunglyndi, ótta og ringulreið. Bæði súkkulaði og sum þunglyndislyf hafa þessi áhrif.
Súkkulaði inniheldur talsvert magn af magnesíum, sem er nauðsynlegt efni fyrir heilann til þess að hann geti slakað á. Bragðið af súkkulaði er auk þess gott og dregur úr neikvæðum tilfinningum.
Í nýlegum rannsóknum hefur margt bent til þess að súkkulaði sé í raun og veru hollt. Þeir sem borða súkkulaði einu sinni í viku lifa lengur en þeir sem aldrei borða súkkulaði.