Allt er nú rannsakað. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna við Háskólann í Oklahoma í Bandaríkjunum erum við fljótari að jafna okkur eftir átök ef heilinn reiknar í hvíldartímanum. Þetta kann að hljóma undarlega og er satt að segja undarlegt. Þeir sem tóku þátt í umræddri rannsókn voru látnir takast á við stærðfræðiþrautir á milli tveggja æfinga á sömu æfingunni. Vöðvarnir reyndust fljótari að jafna sig þegar heilinn þurfti að takast á við stærðfræðiþrautirnar en þegar menn einfaldlega lögðust til hvíldar. Vísindamennirnir vita ekki nákvæmlega hvaða samhengi er að finna í þessum niðurstöðum en komu fram með þá tilgátu að það væri hin andlega einbeiting sem skipti máli fyrir styttri hvíldartíma. Hugsanlega slaka vöðvarnir betur á þegar hugurinn er upptekinn við annað en hversu erfið æfingin sé. Það er því kannski ekki svo galið að prófa að reikna nokkur dæmi á næstu æfingu.
(Jornal of Strength and Conditioning Research 2011)