Æxli geta vaxið hraðar ef járnmagn líkamans hækkar óhóflega.

Samkvæmt blóðrannsóknum á karlmönnum er samband á milli járnmagns í blóði og háþrýstings og hjartasjúkdóma. Hreyfingaleysi og lélegt mataræði fer saman við mikið járnmagn í blóði ungra karlmanna samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var undir stjórn Maja Tomczyk við íþróttafræðiháskólann í Gdansk í Póllandi.

Hreyfing og æfingar virðast koma í veg fyrir uppsöfnun járns með því að stuðla að auknu magni hepsidíns sem gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnun járnmagns. Líkaminn á erfitt með að losna við umframmagn af járni og því getur það safnast upp í óheppilegu magni ef mikið er af því í fæðunni.

Æxli geta vaxið hraðar ef járnmagn líkamans hækkar óhóflega, niðurbrot frumuhimna verður hraðara og hætta á hjartaáfalli eykst. Talið er að hátt magn af ferritíni í blóði tengist aukinni hættu á hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, offitu, heildar-kólesteróli, þríglýseríðum og minnkandi magni háþéttnikólesteróls.

(Journal of the International Society of Sports Nutrition)