Á hlaupabrettum og bekkpressubekkjum í ræktinni má sjá sveitt fólk í sínum eigin heimi með iPod-leiðslur í eyrunum hlustandi á tónlist í botni. Oftar en ekki verður þungarokk fyrir valinu hjá þeim sem eru í miklum átökum og ófáir halda því fram að þungarokk eða taktföst hip-hop tónlist komi þeim í stuð til að æfa og taka duglega á því.
Matthew Biagini við Kaliforníuháskóla sýndi fram á að tónlistarval skiptir máli fyrir átök og árangur í ræktinni. Í sumum æfingastöðvum er spiluð handahófskennd tónlist sem fellur misvel í kramið hjá hlustendum. Rannsóknin sýndi fram á meiri árangur í ræktinni þegar fólk valdi sína eigin tónlist en þegar það hafði ekkert um tónlistarvalið að segja. Frumskilyrði árangurs er að leggja sig fram og það gerist helst þegar tónlistin virkar hvetjandi til átaka.
(Journal Strength Conditioning Research, 26: 1934-1938, 2012)