Grenningarmataræði sem inniheldur 35% prótín er betra fyrir efnaskiptabúskap líkamans en sama fæði með 27 eða 20% prótínhlutfall. Þetta kemur fram í rannsókn á vegum Rocío Meteo Gallego og félaga við Heilsustofnunina í Aragon á Spáni.
Níutíu og ein kona var á niðurskurðarfæði í sex mánuði. Þeim var skipt upp í hópa sem voru ýmist á 20, 27 eða 35% prótínhlutfalli.
Hópurinn sem var með hæsta prótínhlutfallið lækkaði mest í fituhlutfalli og blóðfitu og blóðsykurstjórnun batnaði mest. Það var hins vegar ekki marktækur munur á hópunum í léttingu.
Konurnar voru álíka jákvæðar gagnvart mataræðinu og það hvernig þær þoldu það. Það má því færa rök fyrir því að prótínríkt og hitaeiningalágt mataræði sé heppilegt út frá hollustusjónarmiðum og hjartasjúkdómum.
(Clinical Nutrition, 36: 371-379, 2017)