Í meginatriðum eru flestir sammála um að vatn sé best fyrir orkuheimt vöðva og bæta upp vökvatap líkamans við erfiðar æfingar. Í gegnum árin hefur þekking á gildi íþróttadrykkja aukist og fjöldi drykkja eru í boði sem umfram vatnið innihalda orku og hin ýmsu steinefni og sölt sem talin eru heppileg til þess að bæta líkamanum það vökvatap sem hann verður fyrir við mikla áreynslu.
Líkaminn tapar nefnilega ekki eingöngu vökva með svitanum. Svitanum fylgja sölt og önnur efni sem líkaminn þarf til að halda þreki. Hinir ýmsu íþróttadrykkir hafa því orðið vinsælir en stundum leitum við of langt yfir skammt. Mjólk er hugsanlega heppilegri en margir þeir íþróttadrykkir sem eiga að bæta fyrir vökvatap líkamans.
Mjólkin viðheldur vatnsjafnvægi líkamans lengur og inniheldur sömuleiðis prótín sem gagnast vöðvum líkamans eftir erfiðar æfingar.
Mjólk er hugsanlega heppilegri en margir þeir íþróttadrykkir sem eiga að bæta fyrir vökvatap líkamans.
Breskir vísindamenn undir forystu Ron Maughan sem er einn þekktasti vísindamaðurinn á sviði íþróttanæringar komust að því að fitulítil mjólk (2%) bætti og viðhélt vökvamagni líkamans betur en vatn eða íþróttadrykkir. (Br J Nutr, 98:173, 2007).
Sökum aukinna þvagláta töpuðu þeir sem drukku íþróttadrykkina vökvanum aftur innan klukkustundar. Þetta átti ekki við um þá sem drukku mjólk eða mjólk eða saltblandaða mjólk.
Undanrenna sem er fituminnsta mjólkin sem fáanleg er hér á landi er með 2,6% fituhlutfall sem er nokkuð nálægt því sem miðað var við í umræddri rannsókn.
Suzane Leser er breskur vísindamaður sem endurskoðaði nýlega ýmsar rannsóknir á þessu sviði. Hún komst að þeirri niðurstöðu að með því að drekka prótínríka drykki á eftir æfingum var líkaminn fljótari að bæta sér upp þau blóðsölt sem hann vantaði og plasmaprótín sem lengdu þann tíma sem líkaminn viðhélt eðlilegu vökvajafnvægi eftir æfingar.
(Nutrition Bulletin, 36: 224-234, 2011)