Ýmsar einkennilegar frásagnir sem birst hafa í læknaritum

HANDAPAT

Vitað er um nokkur tilfelli af einkennilegum sjúkdómi sem gefið hefur verið nafnið alien hand syndrom sem e.t.v. mætti kalla framandi handartilfelli eða eitthvað slíkt. Þessi sjúkdómur lýsir sér þannig að sjúklingurinn missir allt vald á annarri hendinni. Hún getur tekið upp á því að slettast til og frá algjörlega tilviljunarkennt og á það stundum til að herma eftir hreyfingum hinnar handarinnar eða gera hið gagnstæða við hana. Í verstu tilfellunum getur hún klipið, klórað eða barið sjúklinginn og vitað er um a.m.k. eitt tilfelli þar sem hönd sjúklingsins reyndi að kyrkja hann. Ekki hefur fundist nein lækning við sjúkdómnum.

BLINDANDI HVEITIKÖKUR

Maður nokkur í Los Angeles þjáist af mjög sérkennilegum augnsjúkdómi. Hann hefur alla jafnan fullkomlega eðlilega sjón en í hvert skipti sem hann sér hveitiköku fer allt í móðu. Sjónin fer að óskýrast áður en hann bítur í kökuna og það varir í allt að fimmtán mínútur eftir að hveitikakan er á bak og burt. Að sögn læknanna sem sögðu frá tilfellinu í bresku tímariti um augnlækningar (British Journal of Ophthalmology) má vera að taugar frá þeim hluta heilans sem stjórnar munnvatnsseytingu liggi við þær sem stjórna sjóninni og þar eigi vandamálið rætur sínar. Hins vegar viðurkenna þeir að þetta séu aðeins tilgátur og í raun viti þeir lítið sem ekkert um orsakir þessara sjóntruflana.

VERULEGA ÓFRÍSKUR EIGINMAÐUR

Rosalinda de Hernandez frá Hondúras varð verulega undrandi þegar henni voru tilkynntar niðurstöður krufningar á manni hennar, Gustavo, sem hafði verið myrtur. Þær sýndu svo ekki var um villst að Gustavo heitinn var í raun kona, og barnshafandi að auki. Rosalinda hafði verið gift Gustavo í níu ár. Ástarlíf okkar hjóna hafði alltaf verið talsvert einkennilegt“ sagði hún en mig grunaði aldrei að hann væri kona.“

AÐ ELTAST VIÐ SMÁMUNI

Þeir sem hafa óvenjuleg og mjög afmörkuð áhugamál kunna að þjást af vægu tilfelli af einhverfu sem kölluð hefur verið Asperger sjúkdómurinn. Dr. Uta Frith sem rannsakað hefur þennan sjúkdóm hefur greint frá mörgum skemmtilegum dæmum þetta varðandi. Einn sjúklingur hennar vissi t.d. allt sem hægt var að vita um fimmtíu afbrigði af gulrótum, annar safnaði upplýsingum um ljósaútbúnað í járnbrautarlestum og sá þriðji hélt nákvæma tölu yfir fjölda þeirra háspennumastra sem hann sá. Enn annar sem þjáðist af sjúkdómnum lærði utanbókar lit allra hurða í dómsölunum í nágrenni hans, nema unglingadómsalanna. Þegar hann var inntur eftir því hvers vegna þeir vektu ekki áhuga hans svaraði hann því einu til að honum leiddust hurðir unglingadómsala. 

FÉKK SJÓNINA EFTIR HÖFUÐHÖGG

Gill Ince fæddist blind á öðru auga. Árið 1971 missti hún sjónina á hinu auganu og var því alblind upp frá því. Eftir að hafa verið blind í fimmtán ár, eða árið 1986, sló hún hins vegar höfðinu í og fékk á ný sjónina á auganu sem varð blint 1971. Sérfræðingar á sviði augnsjúkdóma segja að ört vaxandi vagl eða ský á auga, sem á viku geti algerlega skyggt á sjónina, hafi valdið blindu hins annars heilbrigða auga. Höfuðhöggið hafi síðan losað um skýið þannig að hún fékk sjónina á ný.

FÉKK HREIM EFTIR HEILABLÓÐFALL

Það virðast engin takmörk vera fyrir ýmsum undarlegum afleiðingum heilablóðfalla. Eftir eitt slíkt fór t.d. 32 ára gamall maður frá Baltimore að tala með skandinavískum hreim þrátt fyrir að hafa fyrir áfallið ekki þekkt til neinna erlendra tungumála. Að sögn dr. Dean Tippett sem starfar við læknaháskólann í Baltimore talar maðurinn framandi og með norskum hreim. Hann bætti til dæmis við sérhljóðum eins og gjarnan er með þá sem tala með þessum hreim og sagði setningar eins og How are you today-a?“ o.s.frv. Arnold Aronson, sérfræðingur í talmeinafræðum við Mayo læknamiðstöðina í Minnisota, hefur rannsakað tuttugu dæmi lík þessu. Talið er að þetta stafi af breytingum á raddstöðvum heilans sem valdi framandi framburði á tali sjúklingsins. Einkennin geta dofnað og horfið smám saman en þau geta einnig verið varanleg. 

KYNÓÐIR“ VÆGAST SAGT

Tvítugur maður var svo heltekinn af Austin Metro bifreiðinni sinni að myndir af henni þöktu veggina í svefnherberginu hans og hans viðurkenndi að afturhluti bifreiðarinnar æsti hann kynferðislega. Bakhluti bílsins æsti hann svo mjög að hann átti það til að aka á afvikna staði og skríða síðan undir pústurrör bílsins til að fróa sér. Hann leitaði loks hjálpar og fékk lækningu. Meðferðin gekk út á það að maðurinn fróaði sér meðan hann horfði á myndir af bifreiðum en áður en hann fékk fullnægingu var skipt yfir í myndir af  konum.

Búðarþjófur einn sagði fyrir rétti að hann gæti aðeins fengið fullnægingu við að vera eltur af lögreglu eða verslunarvörðum um götur bæjarins.

Ungur maður, sem sagður var vera mjög hrifinn af gangstéttum, varð að mæta fyrir rétt sakaður um ósiðlegt athæfi. Hann hafði verið gripinn nokkrum sinnum á gangstéttum bæjarins, liggjandi á maganum, í annarlegum hreyfingum og með buxurnar niður á ökklum.

UPP KOMAST SVIK UM SÍÐIR

Kona nokkur í New York varð uppvís að framhjáhaldi þegar hún fæddi tvíbura , dreng og stúlku, sem getnir voru af sitt hvorum föðurnum. Eiginmaðurinn krafðist erfðavísirannsókna svo hægt væri að skera úr um það hver væri faðir barnanna og niðurstöðurnar sýndu að þau áttu ekki sama föðurinn. Eiginmaðurinn var faðir stúlkunnar en elskhugi konunnar var faðir drengsins. Konur geta yfirleitt af sér eitt egg á mánuði, til skiptis frá sitt hvorum eggjastokk, en það kemur þó fyrir að egglos verður úr báðum eggjastokkum. Bæði eggin geta þá frjóvgast og börnin átt sitt hvorn föðurinn hafi konan haft samfarir við fleiri enn einn mann meðan á tíðarhringnum stóð.

MEÐ TVÍBURABRÓÐUR SINN Í BRJÓSTINU

Andrew Danker, 21 árs, var lagður inn á sjúkrahús til rannsókna vegna einkennilegrar bólgu í brjósti hans sem læknar töldu að gæti verið æxli. Rannsóknin leiddi í ljós að æxlið“ var ófæddur tvíburabróðir Andrews sem nú var í brjóstholi hans. Hann gekkst undir þriggja tíma langa skurðaðgerð á sjúkrahúsi í Liverpool þar sem tvíburabróðirinn var fjarlægður.