Samkvæmt opinberum ráðleggingum lætur nærri að flestum karlmönnum ætti að nægja að borða 2,640 hitaeiningar á dag á meðan konum ætti að nægja 1,785. Raunveruleikinn er hinsvegar sá að flestir borða miklu meira en þetta.
Sönnun þess er offitufaraldurinn sem gengur yfir Ísland og flest vestræn lönd. Orkuþörf er vissulega persónubundin og er mjög háð því hversu mikið við hreyfum okkur og hver líkamsgerðin er.
Fólk sem eyðir deginum að mestu fyrir framan sjónvarp eða tölvu á skrifstofu í hreyfingaleysi þarf lítið af hitaeiningum til að halda þyngd. Ofuríþróttamenn þurfa hinsvegar miklu meira.
Hafþór Júlíus Björnsson aflraunamaður og sterkasti maður Evrópu borðar minnst 10,000 hitaeiningar á dag og Michael Phelps sundkappi segir frá því í viðtali að hann borði um 12,000 hitaeiningar á dag þegar æfingarnar eru sem mestar. Venjulegt fólk myndi spikfitna á sama mataræði.
Undirstúkan í heilanum stjórnar matarlyst og hungurtilfinningu og er einkonar stjórnstöð sem á að segja okkur hvenær við eigum að borða og hvenær komið er nóg. Eins og áður sagði er offitufaraldurinn til marks um það að þetta kerfi er ekki skothelt. Flest okkar eru með lélegar bremsur þegar freistandi sætindi eða matur er fyrir framan okkur. Okkur er eðlislægt að borða við hvert tækifæri.
Um 90% þeirra sem hafa náð að léttast eru innan árs orðin jafn þung og áður. „The Biggest Loser“ sjónvarsþættirnir eru gott dæmi um það hve heimskulegt það er að reyna að blekkja orkujafnvægi líkamans með öfgum. Flestir léttast um 50 kíló eða meira í þessum þáttum en skaðinn er sá að grunnefnaskipti líkamans hafa bælst niður um 700 hitaeiningar á dag að meðaltali, jafnvel sjö árum eftir að þáttunum lauk. Afleiðingin er að sjálfsögðu sú að aukakílóin koma aftur.
David Stensel við Háskólann í Loughborough í Bretlandi endurskoðaði nokkrar rannsóknir á æfingum og matarlyst og benti að því loknu á að fólk geti með góðum árangri lést verulega og haldið léttingunni til lengri tíma með því að halda hitaeiningafjölda í hófi og stunda æfingar reglulega. Það sagði enginn að það væri auðvelt.
(Nutrition Bulletin, 41: 314-322, 16)


















