Hreyfing sem lengir vöðva myndar meiri strengi en æfingar þar sem vöðvarnir dragast saman. Þannig fá menn meiri strengi af að ganga niður brekku en upp. Miklir strengir geta valdið langvarandi bólgum og því hafa vísindamenn mikinn áhuga á að rannsaka strengi og þá ekki síst til þess að komast að því hvað dragi úr strengjum og hvað ekki. Flestar rannsóknirnar hafa snúið að því að kanna hvort klakavatnsbað, lyfjagjöf eða teygjur hafi áhrif á strengi en engin þessara aðferða hafa reynst skila árangri. Thomas Best við Ríkisháskólann í Ohio í Bandaríkjunum gerði rannsókn á kanínum sem bendir til þess að nudd dragi úr bólgum eftir æfingar og flýti fyrir endurnæringu vöðva, sérstaklega ef nuddað var strax eftir æfingu. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á svipuð áhrif á menn. Það eru því vísbendingar um að nudd sé ekki eingöngu þægilegt, heldur einnig gagnlegt til þess að flýta bata eftir erfiðar æfingar.
(Medicine Science Sports Exercise, 45: 1105-1112, 2013)