Á milli fertugs og sextugs missa flestir um 20% af vöðvamassanum. Í það minnsta þeir sem stunda ekki æfingar af einhverju tagi. Vöðvarýrnun er alvarlegt vandamál sem dregur úr styrk og krafti og hefur slæm áhrif á efnaskiptaheilsuna. Fitusöfnun í vöðvunum sjálfum eykst líka eftir því sem vöðvarýrnunin verður meiri. Samkvæmt rannsókn sem gerð var af Mathieu Maltais við Háskólann í Sherbrooke í Kanada kom í ljós að aldraðir karlmenn með vöðvarýrnun losnuðu við fitu og bættu á sig hreinum vöðvamassa þegar þeir fengu mjólkurhrysting eftir lóðaæfingar. Mennirnir voru bornir saman við hóp sem fékk hefðbundinn mjólkurlausan prótíndrykk eftir æfingar og báðir hóparnir náðu árangri. Mjólk í kjölfar lóðaæfinga er ágæt leið til að fyrirbyggja vöðvarýrnun og fitusöfnun í vöðvum aldraðra.
(International Journal Sports Nutrition Exercise Metabolism, 26: 71-77, 2016)
