Í byrjun þessa árs kom út sameiginleg skýrsla frá Heilbrigðis- og Landbúnaðarráðuneytum Bandaríkjanna þar sem fólki er ráðlagt að draga úr neyslu á sykri og mettuðum fitusýrum auk þess sem mælt er með að takmarka saltneyslu. Í skýrslunni er farið yfir helstu atriðin sem mælst er til að fólk taki tillit til.
- Ráðlagt er að borða næringarríkar fæðutegundir og vanda valið þegar kemur að mat og drykk.
- Reyndu að borða meira af hollum fæðutegundum eins og ávöxtum og grænmeti, korni, fitulitlum mjólkurafurðum, mögru kjöti og prótínríku fæði.
- Borðaðu meira af dökkgrænu-, rauðu og appelsínugulu grænmeti, baunum og öðru grænmeti.
- Heilir ávextir ættu að vera ofarlega á listanum.
- Dragðu úr viðbættum sykri í mataræðinu þannig að hann sé minna en 10% af hitaeiningunum yfir daginn. Inni í því er síróp og sykraðir drykkir en ekki þarf að telja með náttúrulegan sykur í mjólk og ávöxtum.
- Innan við 10% hitaeininga ættu að koma úr mettuðum fitusýrum. Í skýrslunni er minnt á að lesa utan á pakkningar matvæla og kynna sér vel sykur- og saltinnihald. Við lifum á tímum þar sem við þurfum sjálf að taka ábyrgð á eigin gjörðum enda framboð á ruslfæði aldrei verið meira. Við höfum frelsi til að velja.
(U.S Department of Health & Human Services, 7. janúar 2016)