Ertu slappur, þreyttur og kynferðislega dauður? Hið vestra gerist æ algengara að menn freistist til þess að berjast gegn ellikerlingu með því að taka Androgel. Það er hormónakrem sem nuddað er á líkamann og einnig nota menn HGH hormón (human growth hormone) sem sprautað er í líkamann. Í sumum fjölmiðlum vestra hafa menn gengið svo langt að kalla HGH yngingarmeðal kvikmyndastjarnana vegna þess að talið er að nokkrir af ástsælustu leikurunum noti það reglulega. Sérfræðingar í hormónalækningum og innkirtlafræðingar eru mjög óhressir með þessa þróun og hafa fundið fyrir vaxandi þrýstingi á það að skrifa upp á þessi lyf til sinna sjúklinga. Þetta kom fram í könnun meðal 200 innkirtlafræðinga í félaginu Associaton of Clinical Endocrinologists. Læknarnir hafa áhyggjur af því að fjölmiðlafár um hormónameðferð fái fólk til þess að halda að þetta sé töfralausn á ýmsum vandamálum sem tengjast ellinni. Þeir vilja einungis setja fólk í meðferð sem skortir hormón. Þegar heilbrigðum karlmönnum eru gefin hormón dregur úr náttúrulegri framleiðslu líkamans á hormóninu. Þegar Androgel og sambærileg hormón eru notuð af ábyrgðarleysi eru hættur af aukaverkunum verulegar. Það á eftir að koma í ljós í framtíðinni hvort hormónameðferð eigi framtíðina fyrir sér og hafi jákvæð áhrif á öldrun. Fram að því ættu menn frekar að stunda heilbrigðan lífsstíl og losa sig við niðurbrjótandi ávana eins og það að reykja og losa sig við streitu.
(Health and Medicine Week, 3 júlí, 2000)