Brún fita er þeim eiginleikum gædd að losa sig við orku með hitamyndun í stað þess að geyma hana sem fitu. Hún hjálpar okkur því að venjast kulda og hugsanlega skiptir hún miklu fyrir aukakílóin því ekki viljum við að umframorkan úr mataræðinu breytist í aukakíló ef það er í boði að brenna henni sem hita. Vísindamenn við Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna undir forystu Francesco Celi og Paul Lee halda því fram að með því að minnka hitastigið í svefnherberginu sé hægt að auka hitaeiningabrennsluna. Þeir gerðu rannsókn sem fólst í að fimm karlmenn sváfu í mánuð í senn við annað hvort 19 eða 27 gráður. Í stuttu máli tvöfaldaðist virkni brúnu fitunnar og blóðsykurstjórnun líkamans varð mun betri. Það gæti því verið ágæt hugmynd að sofa í svolítið köldu herbergi til þess einfaldlega að nota næturnar til að losna við aukakílóin og efla efnaskipti líkamans.
(Diabetes, vefútgáfa 22. júní 2014)
