Viðtöl við fitnessmeistarana
Sólveig Thelma Einarsdóttir
Varstu ánægð með frammistöðuna á mótinu?
Já, rosalega ánægð. Þetta kom skemmtilega á óvart. Ég átti ekki von á að komast þetta langt í fyrstu keppninni. Ætlaði bara að prófa að vera með og skoða þetta. Ég tók tíu og hálfa viku frá því að ég ákvað að vera með. Fyrst ætlaði ég ekki að vera með en ég æfi í Betrunarhúsinu og þar var ég hvött áfram.
Hvað er minnisverðast frá Íslandsmótinu?
Helst það að ég ætlaði eiginlega heim eftir fyrsta daginn. Leist ekkert á þetta. Ég átti ekki von á að þetta myndi ganga svona. Það voru svo margir keppendur og svo var ég stressuð. Ég hafði aldrei farið á svona mót þannig að ég vissi ekki almennilega um hvað málið snérist. Sif og Anna Bella voru búnar að aðstoða mig mikið svo þetta gekk á endanum.
Hvernig líst þér á að vera að fara á heimsmeistaramótið á Spáni í haust?
Það er virkilega spennandi. Ég á örugglega eftir að taka 12 vikur í undirbúninginn og þetta verður gaman.
Hvað ertu að borða yfir daginn?
Yfirleitt borða ég Kellogs á morgnana og svo borða ég oft tvö prótínstykki á dag og tvo prótíndrykki. Ávexti borða ég síðan yfir daginn. Ég er í þannig vinnu að ég á erfitt með að borða stórar máltíðir yfir daginn og er því á frekar léttu fæði yfir daginn, en heita máltíð borða ég síðan um kvöldmatarleitið. Kærastinnn, Brynjar Karl Guðmundsson er með umboð fyrir Ast bætiefnin svo ég á hægt með að nálgast prótíndrykki og önnur bætiefni. Mér finnst þau hjálpa mikið til þegar maður er á þönum allan daginn.