Undarlegar niðurstöður fengust úr músarannsókn við Háskólann í Ohio í Bandaríkjunum. Niðurstöðurnar benda til að við ættum kannski að slökkva ljósin alveg á næturnar til að léttast.
Dýr sem voru látin sofa alla nóttina við dauft ljós þyngdust 50% meira en dýr sem sváfu í myrkri á átta vikna tímabili. Mataræðið var hið sama hjá þessum tveimur hópum og hreyfing svipuð. Ljósin virtust rugla matarvenjur dýrana sem hefur haft þessi áhrif á brennslu líkamans. Hugsanlegt er að truflun yfir nóttina verði þess valdandi að efnaskiptin gangi ekki eðlilega fyrir sig.
Eins og áður sagði var um rannsókn á músum og dýrum að ræða og því ekki hægt að fullyrða að hið sama eigi við um mannskepnuna. Þyngingarmunur upp á 50% er mikið og ólíklegt að slíkt eigi við um menn. Þetta voru engu að síður niðurstöðurnar. Mýs eru hinsvegar notaðar í hinar ýmsu rannsóknir vegna þess að viðbrögð þeirra eru oftast sambærileg við viðbrögð manna.
Við höfum áður fengið vísbendingar um að svefn sé nauðsynlegur til þess að léttast og því þarf kannski ekki að koma á óvart að röskun á svefnvenjum hafi þessi áhrif. Kannski við ættum því að slökkva ljósin til öryggis þó við séum menn en ekki mýs.
(Proceedings National Academy of Sciences, vefútgáfa 11. okt 2010)