Magnús Bess varð í öðru sæti á eftir Gunnari en í þremur öðrum flokkum voru menn ekki á eitt sáttir um niðurstöður dómara. Mikil barátta var á milli þeirra Hermanns Páls Traustasonar og Roberto Carlos Orellana í -80 kg flokki sem lauk með sigri Hermanns þrátt fyrir að hann væri ekki skorinn að sama marki og Roberto, enda var augljóst að Hermann var ekki jafn harður á að sjá eins og hans er von og vísa. Roberto sem var mjög jafn hvað samræmi varðar og mjög vel skorinn á greinilega framtíðina fyrir sér í vaxtarrækt. Í -90 kg flokki var tvísýn barátta á milli ólíkra manna. Konráð Valur Gíslason sem varð Íslandsmeistari unglinga á síðasta ári hafði greinilega bætt á sig massa en á kostnað skurða og vantaði mikið upp á að skurðir væru góðir hjá honum. Sæmundur Hildimundarson sem greinilega hafði bætt sig verulega frá síðasta ári atti kappi við Konráð en lét í minni pokann eftir að oddaatkvæði dómara. Sæmundur var vel massaður, hrikalega skorinn og samræmið með því betra sem sést hér á landi og helst að á vantaði meiri massa á kálfa hjá honum. Einnig deila menn um dóm í mínus 80 kg flokki karla ekki síst vegna þess að með þessum úrslitum í -90 voru dómarar að senda út skilaboð um að það væri nóg að vera massaköggull en skurðir og samræmi væru aukaatriði. Sjá nánari úrslit og fjölda mynda á fitness.is.