Það liggur fyrir að Íslandsmótið í fitness verður haldið 22. apríl í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Allt stefnir í að hægt verði að halda viðburði án takmarkana.
Keppendur, gamlir og nýir hafa sýnt mótinu áhuga og því verður spennandi að sjá hverjir muni stíga á svið. Margir hafa beðið eftir því að faraldrinum ljúki svo hægt sé að horfa fram í tímann með einhverri vissu. Vissulega höfum við öll lært af ástandinu undanfarin tvö ár að ekki er á neitt treystandi varðandi samkomutakmarkanir þegar viðburðir eru skipulagðir með miklum fyrirvara. Mótið verður haldið 22. apríl hvað sem tautar og raular í faraldrinum og fari svo að gripið verði aftur til samkomutakmarkana verður fundin leið til að halda mótið engu að síður í takti við gildandi takmarkanir – sem verða vonandi engar eins og staðan bendir til núna.
Skráning keppenda mun hefjast á fitness.is í byrjun mars.