Það getur verið freistandi fyrir íþróttamenn sem verkjar í allan skrokkinn vegna strengja að taka íbuprófen og acetaminófen til þess að lina sárustu kvalirnar. Hér á landi eru verkjalyf ekki endilega undir sömu heitum og erlendis, en þó er auðvelt að sjá hvort þessi efni séu í þeim verkjalyfjum sem verið er að nota með því einfaldlega að lesa utan á pakkann. Það eru mistök hjá íþróttamönnum og líkamsræktarfólki að taka þessi verkjalyf vegna þess að þau koma í veg fyrir nýmyndun vöðva í kjölfar æfinga. Þau hindra framleiðslu líkamans á cyclooxygenasa (COX) sem þjónar því hlutverki að örva framleiðslu á bólguvaldandi efnum sem heita prostaglandín. Það er allt annað en þægilegt að finna fyrir bólgum í líkamanum en bólgur eru hinsvegar eðlileg viðbrögð líkamans við frumuskemmdum og ertingu. Bólgur virðast nauðsynlegar til þess að nýmyndun vöðva eigi sér stað í kjölfar erfiðra æfinga. Líkamsræktarfólk ætti því að takmarka notkun íbúprófens og acetamínófens.
(American Journal of Physiology Regulatory, Integrative and Comparable Physiology, 292:R2241-R2248, 2007)