Mynd

Kenningar um það hversu lengi á að hvíla sig á milli lota í æfingum eru nokkuð margar. Það sem hentar kraftlyftingamönnum eða styrktaríþróttamönnum er ekki endilega það sama og það sem hentar vaxtarræktarmönnum. ACSM (American College of Sports Medicine) er ein virtasta stofnunin sem lætur sig varða íþróttalæknisfræði. Fyrir ekki alls löngu sendu þeir frá sér opinberlega tilkynningu um það hve lengi ætti að hvíla sig á milli lota í æfingum. Þeir mæltu með því að hvíla sig nógu lengi til þess að ná sér alveg sem er yfirleitt um fimm mínútur eftir erfiða lotu. Þannig geturðu tekið nógu vel á í næstu lotu. Þetta er gott og gilt fyrir styrktaríþróttamenn og kraftlyftingamenn en satt að segja eru menn ekki sannfærðir um að það sama henti vaxtarræktarmönnum. Æfingar vaxtarræktarmanna fá vöðvana til þess að vaxa með því að mikil spenna myndast og jafnvel smávægilegar skemmdir verða í vöðvanum vegna átaka. Ef svo er má ætla að ráðleggingar ACSM séu jafn gildar fyrir vaxtarræktarmenn, en einnig þarf að spyrja sig hvort þáttur aukins blóðflæðis, hormónar og mjólkursýra eigi ekki stóran þátt í vöðvavexti. Hugsanlega er lítil hvíld eða síbreytileg hvíld best fyrir vaxtarræktarmenn. Eins og staðan er í dag er í raun ekki hægt að fullyrða hvor leiðin henti vaxtarræktarmönnum betur né að þær geri það báðar álíka vel. Eina sem hægt er að fullyrða er að sé allt lagt í átökin nærðu árangri.

 

 

(ACSM Current Comment, Mai 2001)