Læknar og vísindamenn hafa birt þúsundir rannsókna á ýmsum meðferðarúrræðum en í dag eru menn samt sem áður ekki sammála um árangursríkustu meðferðina né forvarnir.
Áætla má að bakverkir kosti íslenska heilbrigðiskerfið um 10 milljarða á ári. Bakverkir eru ein algengasta orsök þess að fólk undir 45 ára aldri fer á örorkubætur hér á landi. Óbeinn kostnaður er mikill sé tekið tillit til veikindadaga frá vinnu og minni framleiðni í þjóðfélaginu. Talið er að 90% fullorðinna upplifi bakverk á einhverjum tímapunkti og er þá verkur í mjóbaki algengastur.
Meðferðir við bakverkjum eru margar og fjölbreyttar, þar á meðal lyfjameðferðir, skurðaðgerðir, æfingar, losa sig við ístru eða stór brjóst, sjúkraþjálfun og nudd svo það helsta sé nefnt. Læknar og vísindamenn hafa birt þúsundir rannsókna á ýmsum meðferðarúrræðum en í dag eru menn samt sem áður ekki sammála um árangursríkustu meðferðina né forvarnir. Daniel Steffens við Háskólann í Sydney í Ástralíu og félagar halda því fram að æfingar og kennsla séu áhrifaríkustu aðferðirnar til að takast á við verk í mjóbaki. Hann og félagar hans endurskoðuðu um 6000 rannsóknir og lögðu saman niðurstöður 23 rannsókna með svonefndri safngreiningaraðferð. Æfingar eða æfingar og kennsla þar sem kennslan snýst um að læra aðferðir til að vernda mjóbakið reyndust einu aðferðirnar sem hægt var að sýna fram á að virkuðu. Samt sem áður höfðu æfingar og kennsla einungis lítil áhrif á fækkun veikindadaga vegna bakverkja. Bakbelti og innlegg í skó höfðu engin áhrif sem forvörn né sem meðferð til að draga úr bakverkjum.
Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi nýlegra rannsókna að æfingar á borð við uppsetur (sit-ups) geta gert bakverki verri en áður (sjá backfitpro.com). Rannsóknir Stuart McGill og félagar við Waterloo Háskólann í Kanada hafa sýnt fram á að með því að styrkja kjarnvöðvana er hægt að fyrirbyggja verki í mjóbakinu. Styrking svonefndra kjarnvöðva felur í sér sterkari vöðva í nágrenni við hrygginn sem halda betur við og koma styrk og hraða til skila út í útlimina.
(JAMA Internal Medicine, vefútgáfa 11. janúar 2016)