Reykingar
Á tíu sekúndna fresti deyr einn einstaklingur í heiminum af völdum tóbaks. Ef fer fram sem horfir á næstu þrjátíu til fjörutíu árum mun dánartíðnin verða komin í einn á þriggja sekúndna fresti.
Nýleg gögn hafa staðfest þá niðurstöðu manna að reykingar væru hættulegri en áður var talið og þótti það þó nóg. Reykingamenn eru þrisvar sinnum líklegri til að deyja af völdum fjölda sjúkdóma en reyklausir. Dánarorsakirnar spanna yfir 24 sjúkdóma sem greina má niður í nokkra flokka. Ef óþarfa dauðsföll af völdum þessara sjúkdóma eru af völdum tóbaks, eins og reyndar vitað er, þá eru líkur lífstíðar reykingamanns á því að deyja af völdum reykinganna 50% á móti öllum öðrum þekktum dánarorsökum. Það eru semsagt helmings líkur á því að menn deyi af völdum reykinga en ekki af öðrum ástæðum ef menn reykja meira eða minna alla ævi!
Reykingunum fylgja líka önnur vandamál sem eru lengi að koma fram enda eru aukaverkanir ekki jafn fljótar að koma fram og hjá ýmsum öðrum fljótvirkari eiturefnum.
Heilsuvandamálin sem fylgja reykingum eru verulega vanmetin af almenningi og jafnvel einnig af þeim sem standa fyrir forvörnum. Þetta sést greinilega þegar skoðuð er tafla yfir árleg dauðsföll af ýmsum orsökum þar sem reykingar eru mun algengari dánarorsök en önnur atriði sem þó fá meiri umfjöllun og fé til forvarnarstarfa heldur en reykingarnar. (Sjá töflu 1.)
Tafla 1. Áætluð hætta á dauða af ýmsum orsökum, Bandaríkin.
DAUÐAVALDUR | ÁRLEG DAUÐSFÖLL PER MILLJÓN MANNS |
Reykingar | 7000 |
Alkóhól | 541 |
Umferðarslys | 187 |
Drukknun | 22 |
Óbeinar reykingar | 19 |
Allir aðrir mengunarvaldar í lofti | 6 |
Eldingar | 0,5 |
Heimild: United States Surgeon-General, 1989 |
|
Tóbak er þekkt eða líkleg orsök dauðsfalla vegna:
Krabbamein |
Vör, munnholi, koki |
Vélinda |
Brisi |
Barkakýli |
Lungnabarka og pípur |
Þvagblöðru |
Nýru og önnur þvagfæri |
|
Hjartasjúkdómar |
Gigtar- hjartasjúkdómar |
Of hár blóðþrýstingur |
Blóðþurrðar hjartasjúkdómar |
Lungna- hjartasjúkdómar |
Aðrir hjartasjúkdómar |
Heilahvels æðasjúkdómar |
Fituhrörnun slagæða |
Ósæðagúlpur |
Aðrir æðasjúkdómar |
|
Öndunarsjúkdómar |
Berklaveiki |
Lungnabólga og inflúensur |
Bronkitis og lungnaþemba |
Asmi |
Krónísk öndunarþrengsli |
|
Barnasjúkdómar |
Minni fæðingarþyngd |
Öndunarerfiðleikaeinkenni |
Erfiðleikar með öndun í fæðingu |
Vöggudauði |
Auk þess veldur tóbak lungnakrabbameini og líklega öðrum sjúkdómum fyrir tilstuðlan óbeinna reykinga og fyrir kemur að hinar ýmsu tóbaksvörur valdi eldsvoða.
Ein aðal ástæðan fyrir því að tóbaksframleiðendur hafa komist upp með þá gífurlegu markaðssetningu sem átt hefur sér stað í heiminum er að menn hafa vanmetið áhættuþættina og aukaverkanirnar af reykingunum. Þetta er ein aðalástæðan fyrir því að ennþá er auðvelt að nálgast tóbak og vægt hefur verið tekið á tóbaki í reglugerðum og lagasetningum. Hér á landi er nýlega búið að taka fyrir frumvarp sem tekur til þessara þátta og ljóst að reykingamenn hafa í færri hús að venda eftir gildistöku þess. Skilningur þingmanna, almennings og þeirra sem koma nálægt tóbaksiðnaðinum hefur verið af skornum skammti á þessum málefnum er fer þó hægt vaxandi. Mikið virðist skorta á að menn sjái raunveruleikann eins og hann er. Við erum að tala um eitt alvarlegasta bölið sem fylgir neysluvenjum nútímans en engu að síður hafa söluaðilar tóbaks fengið að vera nokkuð óáreittir fram til þessa. Líkleg ástæða fyrir þessu er sú að menn hafa ekki áttað sig á umfangi þess heilsutjóns sem reykingarnar valda. Ef um eina dauðaorsök væri að ræða eins og t.d. þegar umferðarslys verður, þá er líklegra að eftir því yrði tekið. Ef allir sem látast af völdum reykinga létust af því að þeir hóstuðu sig einn daginn í hel, yrði eftir því tekið. En þegar um a.m.k. 24 sjúkdóma er að ræða, þá verða reykingarnar sem orsakavaldur minna áberandi.
Ekkert fær hinsvegar breytt þeirri staðreynd að reykingar eru einn aðal bölvaldur þessarar aldar. Talið er að á milli 1950 og 2000 muni reykingar hafa valdið dauða 62 milljóna í þróunarlöndunum einum saman. Helmingur þeirra dauðsfalla, (38 milljónir) gerist á aldursbilinu 35 – 69 ára. Þetta þýðir að menn eru á besta aldri þegar maðurinn með ljáinn bankar á dyrnar. Að meðaltali er þetta fólk að tapa 22 árum af sinni ævi vegna reykinganna þegar miðað er við meðal lífslíkur. Það finnst varla annað fordæmi fyrir nokkurri vöru sem virkar á þann máta að ef hún er notuð í samræmi við það sem framleiðandi hennar vonast eftir þá veldur hún dauða. Rannsóknir hafa bent til að tóbak sé jafnvel meira ávanabindandi en heróín, kókaín, marijuana eða alkóhól. Það er því óhætt að segja að þeir sem standa að þessari framleiðslu hafi svarta samvisku. Yfir höfuð erum við mennirnir líklega það grandvaralausir, leiðitamir og hreinlega fáfróðir að auðvelt er að leiða bölvald sem þennan yfir okkur. Ekki bara á löglegan hátt heldur einnig kostnaðarsaman hátt. Þegar menn taka saman heilbrigðiskostnað vegna reykingamanna gleymist oft eitt atriði, en það er að það er ekki bara heilbrigðiskerfið sem þarf að borga brúsann svo um munar. Reykingafólkið þarf að kaupa tóbak, eyðir gífurlegum fjármunum í tóbakið sjálft en ekki bara afleiðingar þess. Þær eru eflaust margar fjölskyldurnar sem hefðu það betra fjárhagslega ef ekki væri reykingamaður í fjölskyldunni. Þannig neyðumst við til að horfa upp á að hér er um bölvald að ræða á fleiri sviðum en því heilsufarslega.