Magnús Bess Júlíusson byrjaði keppnisferil sinn í vaxtarrækt 1989 í Háskólabíói í unglingaflokki. Síðasta Íslandsmót var tíunda mótið hans. Þessi tvö ár sem hann keppti sem unglingur sigraði hann í heildarkeppni unglinga og eftir að hann hóf keppni í hópi hinna fullorðnu hefur hann sex sinnum orðið heildarsigurvegari á Íslandsmeistaramótum. FF heyrði hljóðið í Magnúsi Bess skömmu eftir Íslandsmótið en hann og Magnús Samúelsson æfingafélagi hans og sigurvegari í 90 kg flokki eru að stefna að vaxtarræktarkeppni í Hollandi í febrúar.

 

Er ætlunin að halda áfram að keppa?

Já, það er ekki annað uppi á teningnum. Ég held að minnsta kosti áfram að æfa því hættir maður aldrei. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig gengur í keppninni í Hollandi og reyna þá að fara meira erlendis ef það verður gaman að þessu.

 

Kom þér á óvart að sigra heildarflokkinn á Íslandsmótinu?

Nei í rauninni ekki. Það er þó aldrei hægt að vera alveg viss. Ég átti von á því að Jón Bóndi myndi koma sterkari inn en Magnús Samúelsson var líka búinn að bæta sig mikið. Sjálfur var ég búinn að bæta mig talsvert og þyngjast um 4 5 kg á milli ára sem er góð bæting.

 

Nú sigruðuð þið æfingafélagarnir sitthvorn flokkinn á Íslandsmótinu. Er einhver leyniuppskrift að því?

Ætli uppskriftin felist ekki helst í því að taka almennilega á því. Sigurður Kjartansson sem sigraði í -70 flokknum æfði reyndar annað slagið með okkur líka, þannig að okkur æfingafélögunum gekk mjög vel.

 

Hvernig er mataræðið?

Í mataræðinu er ég mjög harður. Fyrir síðasta mót tók ég óvenju langan tíma eða 11 vikur í sköfun. Yfirleitt hef ég bara tekið átta vikur en með því að taka lengri tíma helst vöðvamassinn betur og allt gengur betur. Oft hefur mér fundist vanta örlítið upp á. Núna hef ég yfirleitt tekið einn nammidag í viku sem bjargar ansi miklu en annars er ég á 2500 3000 hitaeiningum sem eru í sex til sjö máltíðum yfir daginn. Ég er mjög harður í fæðubótarefnum og tek þau reglulega yfir daginn. Megin uppistaðan í þeim er glútamín, hreint prótein og kreatín. Hreina próteinið tók ég á kvöldin fyrir svefn og á morgnana þegar ég vaknaði en tók blandað prótein yfir daginn. Kjúklingabringur og fiskur eru í miklu uppáhaldi og hrísgrjón. Þau gefa mikla fyllingu og þegar ég er að skera niður reyni ég að vera frekar hár í kolvetnunum.

 

Eru fleiri mót á dagskránni?

Við erum líka að spá í að fara á Norðurlandamótið sem haldið verður 19. maí í Lundi í Svíþjóð. Magnús Samúelsson fer líka á það mót.

Hvernig æfið þið félagarnir núna?

Hér áður fyrr var ég yfirleitt í svakalegum þyngdum en er búinn að breyta því með því að pumpa meira. Það veldur minni meiðslum og sliti. Hér áður fyrr var ég að taka miklar þyngdir 2 3 endurtekningar. Í dag tek ég brennsluæfingar fjórum sinnum í viku sem felast aðallega í því að hjóla í 30-40 mínútur og taka magaæfingar á eftir.