Hnébeygjan er tæknilega séð með flóknari æfingum. Flestir framkvæma hana vitlaust þar sem þeir beygja bakið, leggja of mikið álag á lærvöðvana án þess að láta rassvöðvana taka álagið og brjóstkassinn sígur niður.

Fóta- og mjaðmastaðan verður að vera rétt til þess að leggja ekki of mikið álag á hnén og bakið. Hnén eru sérlega viðkvæm fyrir röngu álagi og því skiptir miklu máli að gera hnébeygjuna rétt. Bakið getur sömuleiðis farið illa.

Paul Comfort og Peter Kasim við Íþróttastofnunina í London hafa komist að þeirri niðurstöðu í rannsóknum sínum að gleið og eðlileg fótastaða þar sem þyngdin er færð aftarlega þannig að mjaðmirnar taki átakið í stað baksins sé lykillinn að því að lágmarka meiðsli. Höfuðið þarf að vera í hlutlausri stöðu og bakið þarf að halda eðlilegri sveigju í lyftunni.

Hnébeygjur eru mikilvæg undirstaða fyrir styrk. Þeir sem geta ekki gert alvöru hnébeygjur verða seint mjög sterkir. Það er því mikilvægt að framkvæma hana rétt.
Rétt framkvæmd er eftirfarandi: Stattu með fæturnar þannig að fótabil sé rúmlega axlabreidd. Tærnar vísa örlítið út, höfuðið beint, bakið beint og láttu stöngina hvíla á holdmesta hluta efra-baksins. Þyngdin á að vera beint fyrir ofan miðjar iljar eða örlítið aftar. Beygðu þig niður og haltu þyngdarpunktinum yfir iljunum og spenntu mjaðmirnar á leiðinni niður þar til lærin eru samsíða gólfinu. Gættu þess að halda bakinu beinu á leiðinni niður, axlirnar afturábak, brjóstið fram, höfuðið beint og láttu lærin færast í sundur þannig að skrokkurinn fari niður á milli lærana ef svo má segja. Utanverðar iljarnar eiga að þrýsta á gólfið út á við til hliðana. Reistu þig síðan upp í byrjunarstöðu og einbeittu þér að því að átakið sé sem mest á afturhluta mjaðmanna.
(Journal Strength Conditioning, 29:10-13)