Flest blöð að Fitnessfréttum undanskildum í seinni tíð birta af og til afreksgreinar með fyrir og eftir ljósmyndum af fólki sem er búið að léttast um tugi kílóa. Óþægilega oft koma aukakílóin til baka eftir ákveðinn tíma þrátt fyrir góðan ásetning. Létting um 10-25 kíló á innan við einu ári er algeng. Það algeng að sú létting dugir ekki til að komast í fréttirnar og á forsíður dægurmálablaða. Vandinn er að viðhalda léttingunni til lengri tíma. Líkaminn bregst nefnilega við léttingunni með því að hægja á efnaskiptunum. Líklega er þar um sjálfsbjargarviðleitni að ræða sem hefur þróast í gegnum árþúsundir. Samkvæmt rannsóknum getur efnaskiptahraðinn minnkað um 20% eftir mikla léttingu. Efnaskiptahraðinn skiptir okkur miklu máli þar sem hann segir til um það hversu miklu líkaminn brennir í hvíld. Þegar á heildina er litið ræður hann miklu um hitaeiningabrennsluna á einum sólarhring.
Hægt er að hafa áhrif á þessa þróun með réttu mataræði ef marka má rannsókn sem gerð var við Barnasjúkrahúsið í Boston sem gefur til kynna að samsetning fæðunnar hafi áhrif á efnaskiptahraða.
Vísindamennirnir rannsökuðu unglinga sem höfðu lést um 10-15% líkamsþyngdarinnar. Fitulítið mataræði hægði á efnaskiptahraðanum meira en mjög kolvetnalítið mataræði. Flestir sérfræðingar í léttingu og næringu mæla með fitulitlu mataræði til þess að léttast en þessi rannsókn sýnir fram á að þannig mataræði veldur þyngingu, háum blóðþrýsting, aukningu í blóðfitu, kviðfituaukningu og lélegri blóðsykurstjórnun. Besta leiðin til þess að komast hjá þyngingu eftir mikla léttingu vegna hægra efnaskipta er að draga úr einföldum sykri í mataræðinu í stað þess að minnka fituna. Ekki má gleyma því að heildarfjöldi hitaeininga skiptir eftir sem áður máli. Ef efnaskiptahraði líkamans vinnur gegn markmiðinu sem er að viðhalda léttingunni er mun erfiðara að viðhalda léttingunni til lengri tíma.
(Journal American Medical Association, 307: 2627-2634, 2012)