Eftir ofát eða þyngdaraukningu gefa fitufrumur frá sér efnið leptín. Leptín er hormón sem hefur það hlutverk að draga úr matarlyst og auka efnaskiptahraða í líkamanum. Hjá okkur mannfólkinu er magn leptíns yfirleitt yfir eðlilegu marki í feitu fólki sem gefur til kynna að það sé ekki að virka eðlilega hjá þeim sem flokkast sem feitir. Þegar magn leptíns verður of mikið hættir líkaminn að hlusta á boð um að draga úr matarlyst. Hann verður ónæmur ef svo má segja. Talið er að insúlínviðnám sem stafar af galla í insúlínviðtökum í frumum geti skýrt þessi óeðlilegu efnaskipti leptíns í feitu fólki.
Sveiflur á milli hungur- og saðningartilfinningar eru ýktari þegar fæðuvalið snýst um fæðutegundir með háum sykurstuðli.
Fiskát dregur úr leptínmagni og stuðlar þannig að betri stjórn á matarlyst. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á tveimur samliggjandi ættbálkum í Tansaníu í Afríku var fólk sem borðaði mikið af fiski með mun minna af leptíni en grænmetisætur.
Við vitum að fiskneysla hefur ýmis jákvæð áhrif á heilsuna. Þrjár stórar lýðheilsurannsóknir á rúmlega 50.000 manns hafa sýnt að neysla á fiski sem inniheldur mikið af omega-3 fitusýrum kemur jafnvægi á hjartslátt og dregur úr tíðni óvæntra dauðsfalla. Fitan virkar þannig að frumuhimnur í hjartanu þykkna með þeim áhrifum að ólíklegra er að hjartsláttaróregla verði vandamál. Dæmi um fisktegundir sem innihalda mikið af omega-3 fitusýrum eru lax, silungur, síld og makríll.
Heppilegast er að forðast fiskistauta í raspi og fiskisamlokur. Þetta er ekkert annað en ruslfæði. Unnin matvara af þessu tagi er slæmur félagsskapur sem ber að forðast. Fiskistautar og fiskréttir í raspi innihalda hættulegar mettaðar fitusýrur, ekki síst eftir steikingu og innihalda lítið af omega-3 fitusýrum. Enn og aftur erum við því minnt á að heppilegast er að vinna matvörur sem minnst.
(Circulation 106 – rapid communication: 289)