Reglulegar æfingar eru mikilvægar en miklu skiptir að halda sér á hreyfingu yfir daginn.
Það þarf ekki að segja lesendum Fitnessfrétta mikið um mikilvægi þess að stunda reglulegar æfingar. Skilgreina má reglulegar æfingar sem átök vöðva eða vöðvahópa sem skipulögð eru fyrirfram. Það að fara út að skokka eða mæta í ræktina og lyfta lóðum fellur undir þetta. Hreyfing er hinsvegar það að ganga, standa eða hreyfa sig þannig að það krefjist orku.
Æfingar og hreyfing eru hvorutveggja mikilvæg. Nyssa Hadgraft við Baker hjarta- og sykursýkistofnunina í Melbourne í Ástralíu sýndi fram á þetta í nýlegri rannsókn. Fimm mínútna ganga á klukkustundar fresti á átta klukkustunda vinnudegi skilaði sér í jákvæðari starfsmönnum, betri líðan og bætti andann á vinnustaðnum.
Jákvæðar niðurstöður rannsóknarinnar voru nokkuð fyrirsjáanlegar. Vísindamennirnir gerðu hinsvegar engar mælingar á heilsufari, fjarvistum eða heilbrigðiskostnaði. Fyrir vikið er rannsóknin gagnrýnd fyrir að hafa ekki sýnt fram á niðurstöður sem skipta fjárhagslegu máli fyrir fyrirtæki. Reglulegar æfingar eru mikilvægar en miklu skiptir að halda sér á hreyfingu yfir daginn.
(International Journal of Behavioral Nutrion and Physical Activity 14: 27, 2017)