Það skiptir miklu máli þegar æfingakerfi er hannað að taka tillit til þess í hvernig formið er á þeim sem er að æfa. Byrjandi nýtur góðs af nánast öllum æfingakerfum, sama hvernig þau eru vegna þess að einhverjar æfingar eru betri en engar. Sá sem er þrautþjálfaður þarf hinsvegar að leita lengra. Honum nægir ekki það sama og byrjandanum. Flestar rannsóknir hafa sýnt fram á að ein lota hefur álíka mikil áhrif og nokkrar lotur fyrir byrjanda til að auka styrk og kraft. Málið er hinsvegar ekki endilega svona einfalt vegna þess að margar þessara rannsókna hafa verið gagnrýndar fyrir að taka ekki tillit til ákefðar í átökum. Vissulega skiptir máli hversu margar lotur eru teknar, en ein lota sem tekin er af ákefð getur skilað jafn miklu og fimm lotur þar sem viðkomandi leggur sig ekki sérlega mikið fram.
Rannsókn sem gerð var í Brasilíu á óþjálfuðum einstaklingum sýndi fram á að fimm lotur fyrir hverja æfingu sem tekin var kom betur út en ein til þrjár lotur þegar styrkur var mældur. Fylgst var með árangrinum í sex mánuði. Þegar æfingakerfi eru rannsökuð er vandasamt að taka tillit til ákefðar þó vel sé staðið að vali viðfangsefna í viðmiðunarhópa og reynt að sneiða hjá rannsóknargöllum sem geta skekkt niðurstöður. Við erum jú öll einstaklingar og sérstök.
(Journal Strength Conditioning Research, vefútgáfa í janúar 2015)