Suma daga er rifið í lóðin af offorsi og endalausri orku. Svo kemur dagur sem fær höfuðið til að hanga og engin lóð vilja upp – ef á annað borð er mætt í ræktina. Mismunandi dægursveiflur hafa lengi verið ráðgáta fyrir þá sem æfa reglulega. Það breytast ekki endilega neinar ytri forsendur eins og svefn, vinna eða mataræði – en engu að síður koma daprir dagar í ræktinni – að því er virðist að ástæðulausu.
Það fyrsta sem kann að koma upp í hugann sem skýring eru hormónasveiflur. Öll sveiflumst við til í geði og gleði gagnvart hvert öðru og leiða má líkum að því að hormónasveiflur hafi eitthvað með það að gera. Sú er ekki raunin þegar æfingar eru annars vegar. Vísindamenn frá Ástralíu og Nýja Sjálandi komust að því að skýringin er sveiflur í líkamshita á milli daga. Testósterón eða kortísól hafa ekkert með málið að gera.
Notaðar voru æfingar til þess að mæla mismunandi árangur til þess að fyrirbyggja að um væri að ræða huglægt mat á því hvað væru góðir og slæmir dagar. Æfingarnar voru jafnfætis-stökk, hnébeygjustökk, upptog og hámarkslyftufjölda-hnébeygjur.
Líkamshitinn hækkar þegar líður á daginn og er mestur seinnipart dags. Það hefur hingað til ekki þurft vísindarannsóknir til að segja ræktarrottunum að menn séu sterkari seinnipartinn en á morgnana. Engu að síður er gott að sjá það á blaði.
(Journal Strength Conditioning Research, 25: 1538-1545, 2011)