Í líkamanum eru tvær fitutegundir, hvít og brún. Sú hvíta geymir orkuforða og sú brúna myndar hita. Brúna fitan er þar af leiðandi mjög mikilvæg fyrir dýr sem leggjast í híði hluta ársins þar sem hún heldur á þeim hita. Hún gegnir sömuleiðis því mikilvæga hlutverki að halda hita á nauðsynlegum líffærum ungabarna.Fram til þessa hafa vísindamenn ekki talið brúnu fituna hafa mikið að segja um hitaeiningabrennslu fullorðinna og að hún hafi lítil sem engin áhrif á offitu. Með tilkomu PET jáeindaskanna hefur athyglin hins vegar beinst í auknum mæli að brúnu fitunni. Notkun PET jáeindaskanna felur í sér að fylgjast með afdrifum geislavirkra sykra sem sprautað er í líkamann. Líkaminn notar sykrurnar sem orku þar sem efnaskiptin eru mest og með jáeindaskannanum er hægt að kortleggja virknina.
PET jáeindaskönnun hefur sýnt fram á að brúna fitan er mjög virk hjá fullorðnu fólki og kann að hafa mikið að segja um persónubundinn breytileika í fitusöfnun. Hún gegnir einnig því hlutverki að aðlaga líkamann að köldu loftslagi. Hlutfall brúnu fitunnar er allt að 10% í fólki sem býr við kalt loftslag. Hún eykur einnig orkubrennslu í kjölfar ofáts sem fyrir vikið viðheldur jafnari líkamsþyngd.
Með aukinni þekkingu á virkni brúnu fitunnar beinast vonir vísindamanna að því að þróa lyf sem efla virkni hennar í þeim tilgangi að hjálpa fólki að léttast.
(American Journal Physiology Endocrinology Metabolism, vefútgáfa