Ein besta heildaræfing sem hægt er að taka er án vafa hnébeygjan. Hnébeygjan er stundum kölluð móðir allra æfinga vegna þess hversu mikils hún krefst af mörgum vöðvahópum. Hún er grundvöllur styrks hjá kraftlyftingamönnum og reyndar undirstaða styrks ótal íþróttagreina að því ónefndu að engin æfing mótar rass og læri betur.
Hægt er að framkvæma hnébeygjur á nokkra mismunandi vegu. Hefðbundna aðferðin er að hafa stöngina ofarlega á bakinu og fótastöðuna í nágrenni við axlabreidd. Kraftlyftingaaðferðin byggist á að hafa stöngina neðar á bakinu og gleiða fótastöðu. Kassabeygjur byggjast á sömu tækni og kraftlyftingaaðferðin nema hvað settur er kassi fyrir aftan sem sest er á í neðstu stöðu. Breskir vísindamenn sem báru saman þessar aðferðir komust að því að hnén færðust fram fyrir tærnar á niðurleiðinni í hefðbundnu aðferðinni. Fótleggirnir viðhéldu hinsvegar lóðréttari stöðu í bæði kraftlyftinga- og boxaðferðinni og hefðbundna aðferðin lagði meira álag á ökla og bak í samanburði við hinar aðferðirnar. Kraftlyftingaaðferðin tók hinsvegar meira á mjaðmir en hinar aðferðirnar. Allar þessar aðferðir eru góðar, en hver og einn þarf að velja sér aðferð sem hentar og í því sambandi er vert að hafa í huga að mikilvægast er að nota þá aðferð sem lágmarkar meiðslahættu.
(Journal Strength & Conditioning Research, 26: 1805-1816, 2012)