Það er gott að taka hörku æfingu annað slagið. Æfingar sem fá þig til að vilja æla af áreynslu og ógleði vegna átaka eru þolanlegar annað slagið, en það þolir enginn slíkt æfingaálag til lengdar. Til lengri tíma skiptir máli hvernig þú upplifir það yfir höfuð að æfa. Ef þú æfir þannig að þér líður illa, er líklegt að þú æfir ekki til margra ára, jafnvel einungis mánuða. Hver vill eiga áhugamál sem kallar fram ógleði og vanlíðan? Við gefum okkur að þeir séu mjög fáir. Það þarf að gera æfingarnar þolanlega erfiðar en um leið árangursríkar.
Brasilískir vísindamenn mældu áhrif þess að hvíla í eina, þrjár eða fimm mínútur á milli æfinga sem tóku til skiptis á efri og neðri líkamshluta. Tilgangurinn var m.a. að mæla hvernig viðkomandi upplifði álagið.
Þátttakendur virtust upplifa svipað álag við að hvíla þrjár eða fimm mínútur á milli lota í stað einnar mínútu. Þeir gátu lokið fleiri endurtekningum þegar þeir hvíldu lengur og niðurstöðurnar voru svipaðar fyrir efri hluta og neðri hluta líkamans. Þriggja mínútna hvíld á milli lota virtist heppilegust til þess að ná að jafna sig og hélt tímalengd æfingarinnar í hófi.
(Journal Strength and Conditioning Research 25: 3157:3162, 2011)