Þeir sem eru að æfa og stefna á vöðvauppbyggingu ættu að borða um 0,8 – 1,5 grömm af prótíni fyrir hvert kíló líkamsþyngdar. Hægt er að mæla hversu vel líkaminn nýtir prótín og almennt er álitið að líkaminn nýti ekki mikið meira en 30 grömm af prótíni á þriggja klukkustunda fresti. Nýmyndun prótína í líkamanum virðist vera meiri yfir sólarhringinn ef prótínið er borðað fyrrihluta dags en á kvöldin. Mjög margir borða einungis prótín á kvöldin en líklega eru það mistök. Líklega er heppilegra að dreifa prótínneyslunni yfir daginn til þess að nýtingin sé sem best samkvæmt rannsókn sem Douglas Paddon-Jones og Maddonna Mamerow við Læknaháskóla Texas við Galveston. Í rannsókninni voru notaðar háþróaðar aðferðir til að mæla nýtingu líkamans á prótíni með aðferð sem fólst í notkun geislavirkra efna sem gerðu það kleift að rekja nýtingu prótínsins. Niðurstöðurnar gefa til kynna að best sé að borða prótín af og til yfir daginn, ekki bara á kvöldin.
(Journal of Nutrition, 144: 876-880, 2014)