Venjulega er sú hugmynd sem fólk hefur um beinþynningu þannig að það sé eitthvað sem hrjái aðallega eldri konur. Karlmenn eru þó engu að síður í áhættuhópnum en konurnar. Beinþynning lýsir sér í því að beinin verða stökk og léleg og eiga það á hættu að brotna í tíma og ótíma. Þetta er algengara en menn halda þar sem á flestu eldra fólki má sjá einhver merki um beinþynningu. Aðal orsakir beinþynningar eru kalkskortur í fæðunni og hjá konum verður oft vart við beinþynningu í kring um breytingarskeiðið. Margt í sambandi við beinþynningu er ekki fyllilega rannsakað, og beinþynning í karlmönnum er ekki eins vel rannsökuð og í konum, en hún getur verið jafn hættuleg. Í framtíðinni verða örugglega fleiri tilfelli beinþynningar þar sem langlífi gerist algengara. Þrátt fyrir skort á þekkingu varðandi orsök og meðhöndlun beinþynningar, þá er margt sem bæði konur og karlar geta gert til þess að verjast þessum vágesti og beinbrotum.
Yfirleitt hugsum við sem svo að það séu aðallega konur sem fái beinþynningu þar sem kalkmissir verður verulegur í kringum breytingarskeiðið, en fljótlega eftir að beinin eru orðin fullþroska, bæði í konum og körlum byrjar beinþynningin. Beinin hafa hugsanlega hætt að stækka eftir kynþroskaskeiðið, þegar beinendarnir lokuðust, en hins vegar halda beinin áfram að stækka með því að veða sífellt þyngri og breiðari. Beinastækkunin hættir ekki fyrr en um þrítugsaldurinn, og sum bein vaxa jafnvel mun lengur. Á uppvaxtarárunum er meira safnað af uppbyggingarefnum beina heldur en tapast, en hins vegar snýst það oft við þegar fullþroska er náð, þ.e.a.s meira tapast af uppbyggingarefnum beina heldur en fæst sem leiðir til þess að smátt og smátt þynnast beinin með aldrinum.
Ganga eða hlaup eða einhverjar æfingar sem hreifa einungis líkamsþyngdina mynda sterk bein, en styrktaræfingar geta aukið þroska beinagrindarinnar á stöðum sem verða ekki fyrir álagi af völdum göngu eða hlaups. Langlegusjúklingar verða fyrir meiri beinþynningu en aðrir, þar sem ekkert álag er á beinum líkamans.
Þetta skýrir hvers vegna ganga flýtir fyrir því að brotin bein grói. Einnig gefur þetta góða ástæðu til þess að halda eldra fólki ekki of mikið í rúminu, þar sem það flýtti einungis fyrir beinþynningu og hættu á beinbrotum. Reykingar örva beinþynningu. Reykingamenn virðast missa tennur sínar fyrr, vegna beinþynningar í kring um rætur tannana. Ofdrykkjumenn eru einnig í mikilli hættu af beinþynningu. Beinagrind ofdrykkjumanns getur virst vera 20 – 30 árum eldri en hún er í raun og veru. Þar kemur enn ein ástæðan til þess að halda áfenginu innan hóflegra marka.
Annar þáttur sem oft er litið framhjá er þáttur Koffíns og Fosfats í drykkjum. Koffín sem er í kaffi, te, gosdrykkjum, og súkkulaði eykur kalkmissi, þannig að þeir sem neita þessara matvæla verða að auka kalkneyslu sína til þess að vinna upp tapið. Einnig er mikið af Fosfati í öllum gosdrykkjum, en það minnkar nýtingu kalks sé því neitt í óhóflegu magni. Á meðan ekki eru til róttækar aðferðir til þess að komast hjá beinþynningu er ekkert hægt að gera nema fara vel með sjálfan sig, og viðhafa fyrirbyggjandi aðgerðir sem best væri að byrja strax á unga aldri meðan beinin eru að vaxa.