Ef bakið er í lagi er ráðlegt að taka réttstöðulyftu til að ná upp alhliða styrk.
Kjarni kraftlyftinga eru þrjár æfingar. Réttstöðulyfta, bekkpressa og hnébeygja. Þær eiga það sameiginlegt að taka mikið á nokkra vöðvahópa og kallast því „stórar“ æfingar vegna víðtækra áhrifa á líkamann. Réttstöðulyftan hefur lengi verið talinn góður mælikvarði á styrk og rannsóknir á íþróttamönnum sem keppa í kastgreinum, stökkum eða sprettum hafa sýnt að frammistaða í réttstöðulyftu endurspeglar alhliða kraft hjá mörgum.
Þjálfarar og í sumum tilfellum meðferðaraðilar nota réttstöðulyftuna til að fyrirbyggja meiðsli í neðrabaki. Lars Berglund og félagar við háskólann í Umeá í Svíþjóð komust að þeirri niðurstöðu að íþróttamenn sem voru lausir við vandamál í neðrabaki fengu mest út úr því að æfa réttstöðulyftu. Ef bakið er í lagi er því mjög heppilegt að æfa þessa alhliða æfingu til að auka alhliða styrk.
Aðrar kannanir sem gerðar voru af Stuart McGill og félögum í Kanada sýndu fram á að heppilegasta aðferðin til að fyrirbyggja og meðhöndla verki í neðrabaki var að þjálfa upp sterkan kjarna og gæta þess að bakið sé ávallt beint. Kyrrstöðu-kjarnaæfingar komu hinsvegar betur út en alhliða æfingar eins og hnébeygjur og réttstöðulyfta samkvæmt könnun Stuart og félaga.
(Journal Strength Conditioning Research, 29: 1803-1811)