Eftir að efedrín fitubrennslujurtin var bönnuð í flestum löndum hafa bætiefnaframleiðendur lagt kapp á að finna sambærilegt efni sem dregur úr matarlyst og stuðlar að fitubrennslu með jafn áhrifaríkum hætti og efedrínið gerir. Af og til koma því fram á sjónarsviðið meint fitubrennsluefni sem lítið er vitað um. Mörg þessara nýju efna hafa ekki farið í gegnum prófanir og sum þeirra geta beinlínis verið mjög varasöm. Vísindamenn við Mount Sinai læknamiðstöðina í New York skýrðu nýlega frá lifrarbilun sem ung kona hafði orðið fyrir í kjölfar neyslu fitubrennsluefna sem innihalda usnic-sýru (Somalyze og Lipolyze, frá Species Nutrition). Usnic-sýran er bendluð við fleiri lifrarbilunartilfelli og því ætti líkamsræktarfólk að lesa vel aftan á dollurnar sínar ef það er að taka meintar brennslutöflur. Einnig er mjög skynsamlegt að leita á internetinu að umfjöllun um þau brennsluefni sem verið er að taka til þess að fullvissa sig um að þau séu ekki skaðleg.
(Canadian Journal Gastroenterology, 25: 157-160, 2011)