Fæðutegundir og bætiefni eins og Citrulline malat og rauðrófusafi sem auka framleiðslu líkamans á nituroxíði auka sannanlega blóðflæði. Nituroxíð er lofttegund sem myndast í æðaveggjum og skiptir miklu máli fyrir blóðflæði og blóðþrýsting. Einstaka vísindamenn hafa haldið því fram að nítratbætiefni geti aukið þol, blóðflæði til vefja og samdráttareiginleika vöðva. Norskir vísindamenn komust hinsvegar að þeirri niðurstöðu að þó að tekin séu sex grömm af L-arginín amínósýrunni og 615 mg af nítrati sé ekki hægt að sýna fram á áhrif þess á þol eða æfingagetu í hópi víðavangs-skíðamanna.
(Nitric Oxide, vefútgáfa 24. október 2014)