Site icon Fitness.is

Magafitan er hættuleg þrátt fyrir lágan líkamsþyngdarstuðul

Magafitan er samkvæmt þessum niðurstöðum hættuleg þrátt fyrir að menn séu á heildina litið grannir samkvæmt líkamsþyngdarstuðlinum.

Hættan á ótímabærum dauða helst í hendur við vaxandi mittismál eftir því sem árin líða. Eftir því sem mittismálið er meira eykst hættan. Bandaríska krabbameinsfélagið í Atlanta stóð fyrir umfangsmikilli lýðheilsukönnun í tengslum við faraldursfræðirannsóknir sem félagið stendur sömuleiðis fyrir undir forystu Eric Jacobs.

Almenn viðmið líkamsþyngdarstuðuls (BMI)

BMI < 18,5 – einstaklingur of léttur

BMI = 18,5-24,9 – einstaklingur eðlilegur

BMI = 25,0-29,9 – einstaklingur of þungur

BMI = 30,0 – einstaklingur þjáist af offitu

Yfir tíu ára tímabil var ljóst að vaxandi mittismál jók hættuna á ótímabærum dauða um a.m.k 25%. Rannsóknin var mjög viðamikil og full ástæða til að taka hana alvarlega þar sem um 100.000 manns tóku þátt í henni og það sem þykir einna merkilegast við niðurstöður rannsóknarinnar er að hættan jókst, jafnvel þó líkamsþyngdarstuðullinn væri lágur. Líkamsþyngdarstuðull (BMI) er aðferð til þess að reikna út hlutfall á milli þyngdar og hæðar. Stuðullinn finnst með því að deila þyngd í kílóum með hæðinni í metrum í öðru veldi, það er þyngd(kg)/ hæð(m)2. Þeir sem eru feitir hafa háan líkamsþyngdarstuðul en þeir sem eru grannir lágan. Magafitan er samkvæmt þessu hættuleg þrátt fyrir að menn séu á heildina litið grannir samkvæmt stuðlinum.

Hafa ber í huga að íþróttamenn og sér í lagi vaxtarræktarmenn geta mælst með of háan stuðul vegna meiri vöðvamassa en venjulegt fólk. Það er því óþarfi að taka því of alvarlega ef menn hafa verið mjög duglegir í ræktinni og mælast of þungir. Bumban í burtu er málið.

(Archives Internal Medicine, 170:1293-1301, 2010)

 

Exit mobile version