Site icon Fitness.is

Kolvetnalágt mataræði varasamt fyrir börn

Síðan 1980 hefur offita barna þrefaldast. Ætla má að það sama gildi um Ísland og nágrannalöndin og Bandaríkin hvað þetta varðar. Rekja má þessa þróun til breytinga á lífsstíl okkar sem hefur átt sér stað undanfarna tvo til þrjá áratugi.

Hreyfingaleysi er viðvarandi vegna þeirrar menningarlegu breytinga sem felast í því að mikill meirihluti afþreyingar fer í dag fram við tölvu- eða sjónvarpsskjá. Mataræðið hefur ennfremur breyst á þann veg að auðvelt er að innbyrða gríðarlegt magn hitaeininga á auðveldan hátt í formi gosdrykkja og orkuríkra skyndibita.

Offituvandamálið er ekki síður viðvarandi hjá fullorðna fólkinu. Í baráttu sinni við offituna hneygist fullorðna fólkið til þess að fara á kolvetnalágt mataræði sem orðið er tískufyrirbrigði þessa dagana. Börn ættu ekki að fara að dæmi foreldrana hvað kolvetnalágt mataræði varðar. Brasilísk rannsókn á tilraunarottum sýnir fram á mjög neikvæð heilsufarsleg áhrif á ungar rottur sem settar eru á kolvetnalágt mataræði.
Kolvetnalágt mataræði stuðlar að frekar hraðri léttingu, en dregur úr vexti og hlutfallslega er meiri fitusöfnun á magasvæðinu en ella. Það er þekkt staðreynd í dag að mikil magafita tengist minni skilvirkni á úrvinnslu blóðsykurs og veldur að lokum hjarta- og kransæðasjúkdómum.

Feit börn ættu því alls ekki að fylgja hitaeininga- og kolvetnalágu mataræði vegna vísbendinga um að það dragi úr eðlilegum vexti og trufli efnaskipti. Þau ættu frekar að vera á hitaeiningalágu mataræði sem fylgir ráðlögðum hlutföllum á milli orkuefnana, fitu, prótíns og kolvetna. Aukin hreyfing skiptir líka gríðarlegu máli. Ef draga á saman mikilvægustu atriðin sem stuðla að léttingu feitra barna, þá er það eftirfarandi:

– Draga úr sjónvarps- og tölvuviðveru.
– Hætta neyslu skyndibita og gosdrykkja.
– Auka alla daglega hreyfingu.

Newsday 

Exit mobile version