Site icon Fitness.is

Hvað þarf að æfa mikið?

KonaFramstigSérfræðingar á ýmsum sviðum virðast engan vegin geta komið sér saman um það hversu mikið fólk þurfi að hreyfa sig til þess að halda heilsu. Þróunin hefur verið þannig að á sjöunda áratugnum var fólki sagt að það þyrfti einfaldlega að hreyfa sig meira, án frekari útskýringa. Fljótlega breyttist það viðhorf þegar ýmsir fræðingar fóru að halda því fram að fólk þyrfti að stunda þolþjálfun á borð við hlaup, sund, göngu eða hjólreiðar nokkrum sinnum í viku, helst þrisvar til fimm sinnum, 20 – 60 mínútur í senn við 60 – 85% hámarkspúls.

Þegar vakningin gagnvart þörfinni á aukinni hreyfingu fer af stað á sínum tíma var talið að helmingur fólks hreyfði sig ekki nægilega mikið og fjórðungur til viðbótar var kyrrsetufólk sem stundaði enga reglulega hreyfingu. Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að þróunin hefur síst orðið til batnaðar hvað líkamsástand fólks varðar í ljósi offituvandamálsins.

Stofnanir og sjálfskipaðir sérfræðingar hafa smátt og smátt verið að auka kröfurnar til almennings varðandi ástundun æfinga. Þörfin er svo sannarlega til staðar, því ekki er annað að sjá en almenningur fitni sífellt meira. Einu undantekningarnar eru þeir sem hreyfa sig mikið og reglulega. Í dag er viðmiðunin sú að fólk þurfi að hreyfa sig rösklega eða stunda æfingar í a.m.k. klukkustund á dag til þess að halda heilsu og fitna ekki. Einhverjum kann að þykja það mikið, en þetta er svartur sannleikurinn. Þjóðfélagið í dag er þannig að aðgengi að hitaeiningum er orðið afar auðvelt og eina leiðin til að losna við þær er að brenna þeim með æfingum.

(Mayo Clinic Health Letter, Apríl 2003)

Exit mobile version